12 Desember 2024 13:29

Lögreglan í samvinnu við Neyðarlínuna og fjölda samstarfsaðila hafa þróað ítarlegt flæðirit með skýrum leiðbeiningum um fyrsta viðbragð vegna vopnalagabrota og kynferðisofbeldis. Flæðiritin eru ætluð starfsfólki skóla, félagsmiðstöðva, og íþrótta- og æskulýðsstarfsemi. 

Forseti Íslands tók á móti fyrstu eintökum af flæðiritunum á Bessastöðum í dag og kynnti sér efni þeirra. Samfélagslögregluþjónar, ásamt fulltrúum Neyðarlínu og Fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra, afhentu forseta ritin og ræddu við hana um markmiðin um að draga úr tíðni ofbeldisbrota. 

Markmið flæðiritanna er:  

  • Skýrt verklag við neyðartilvikum vegna vopnaburðar og kynferðisofbeldis 
  • Fækka ofbeldisbrotum 
  • Stuðningur við þolendur ofbeldis 
  • Stuðningur við gerendur til að stöðva ofbeldishegðun 
  • Aukin þekking á hvernig megi fyrirbyggja slík atvik og draga úr áhættu. 

Tilkynningum til lögreglu og barnaverndar þar sem grunur er um að barn beiti ofbeldi hefur fjölgað verulega. Stjórnvöld hafa brugðist við með 25 aðgerðum, þar á meðal er aukið viðbragð og sýnilegri löggæsla, fjölgun samfélagslögreglumanna og öflugri forvarnir og fræðsla. 

Leiðbeiningarnar um fyrsta viðbragð er mikilvægur þáttur í að tryggja samhæfð viðbrögð hringinn í kringum landið. Flæðiritunum verður dreift til skóla, fylgt eftir af samfélagslögreglumönnum um allt land og verða gerð aðgengileg á 112.is og vefsíðu lögreglunnar.  

Á ofbeldisgátt 112.is er að finna frekari upplýsingar  um úrræði og úrvinnslu mála innan skóla, íþrótta- og æskulýðsstarfs og hjá barnaverndarþjónustu.


Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, tók á móti flæðiritunum í dag.

Kynferðisbrot www.112.is/fr-kynferdisbrot 
Vopnaburður www.112.is/fr-vopnaburdur  

Nánari upplýsingar veitir: 

Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, helena.sturludottir@logreglan.is