27 Mars 2015 19:42
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri undirrituðu í gær samstarfsyfirlýsingu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Mosfellsbæjar um átak gegn heimilisofbeldi. Mosfellsbær er annað sveitarfélagið af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu til að undirrita slíka yfirlýsingu, en Reykjavík staðfesti þátttöku með undirritun 12. janúar sl.
Í yfirlýsingunni felst að þann 1. apríl n.k. munu lögreglan og fjölskyldusvið Mosfellsbæjar taka upp nýjar verklagsreglur í starfsemi sinni. Markmiðin eru markvissari viðbrögð og úrræði gegn ofbeldi á heimilum og bætt þjónusta við þolendur og gerendur.
Með þessari samvinnu verður þjónusta við þolendur fyrrgreinds ofbeldis bætt til muna með því að samhæfa aðgerðir allra sem að málum koma, einkum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar. Öflug upplýsingagjöf um úrræði og eftirfylgd með þolanda hjá fjölskyldusviðinu eru einnig leiðir til þess að styðja og vernda þá sem fyrir ofbeldinu verða. Gerendur fá einnig aðstoð í formi ráðgjafar og boð um meðferð.