27 Desember 2012 12:00
Í dag hafa 4 íbúðarhús verið rýmd. Eitt í Bolungarvík en hin á Ísafirði. Var þetta gert vegna hættu á snjóflóðum. Þá var vegum um Kirkjubólshlíð, Súðavíkurhlíð og Eyrarhlíð lokað af sömu ástæðu. Sama átti við um veginn um Gemlufallsheiði, Flateyrarveg og Suðureyrarveg. Snjóflóð féllu úr hlíðum þessara vegakafla í dag.
Björgunarsveitir á norðanverðum Vestfjörðum hafa staðið í ströngu við lokanir, flutning á fólki og aðra aðstoð við lögregluna í dag.
Milli kl.19:00 og 20:00 í kvöld var vegurinn um Eyrarhlíð opnaður. Þeim sem þurftu nauðsynlega að komast þessa leið var gefinn kostur á að aka hana en undir eftirliti björgunarsveitarmanna, sem voru sitt hvoru megin á hlíðinni.
Lögreglan á Vestfjörðum naut aðstoðar Neyðarlínunnar varðandi þetta verk. Þannig sendi Neyðarlínan SMS boð í alla GSM síma á Ísafirði, Hnífsdal og Bolungarvík varðandi þessa tímabundnu opnun. Þótti þessi ráðstöfun gefast vel en þetta er í fyrsta sinn sem þessari aðferð er beitt hér á Vestfjörðum.
Ofangreindum vegaköflum verður áfram haldið lokuðum þar til hættumat hefur verið endurskoðað í fyrramálið. Sama gildir um rýmingarnar.