4 September 2007 12:00
Sex réttindalausir ökumenn voru stöðvaðir á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Í Hafnarfirði tók lögreglan karl á sextugsaldri fyrir þessar sakir en sá sagðist hafa gleymt ökuskírteininu heima. Ekki fannst ökuskírteinið en við athugun lögreglu reyndist maðurinn vera sviptur ökuleyfi ævilangt. Í sama bæjarfélagi var stöðvuð för ökumanns á fertugsaldri. Hann laug til nafns og reyndi að framvísa skilríkjum manns sem er meira en tíu árum yngri. Þegar sannleikurinn kom fram varð einnig ljóst að lygamörðurinn hefur aldrei öðlast ökuréttindi.
Í Breiðholti hafði 16 ára stúlka komist yfir bíl og var á rúntinum en eðli málsins samkvæmt hefur hún aldrei öðlast ökuréttindi. Í sama hverfi var þrítugum karli sömuleiðis gert að hætta akstri hið snarasta enda hafði viðkomandi þegar verið sviptur ökuleyfi. Í Háaleitishverfi var bundinn endir á ökuferð liðlega tvítugs pilts af sömu ástæðu. Og í Árbæ hafði lögreglan hendur í hári 19 ára pilts sem gat ekki framvísað ökuskírteini enda aldrei öðlast slík réttindi. Pilturinn var ekki heldur með bílbelti og þá var eitt nagladekk undir bílnum sem hann sagðist hafa fengið lánaðan. Það kannaðist eigandi bílsins hins vegar ekki við þegar lögreglan hafði samband og sagði bílnum hafa verið stolið. Til viðbótar fannst reiðhjól í bílnum og reyndist því hafa verið stolið skömmu áður en hjólinu var komið aftur í réttar hendur. Í ofanálag reyndist pilturinn vera ölvaður en ekki gekk þrautalaust að fá hjá honum sýni. Þegar átti að láta hann undirgangast öndunarpróf bar kauði því við að hann kynni ekki að blása. Pilturinn fékkst þó með semingi til að blása í mæli lögreglunnar og var síðan handtekinn í kjölfarið.