27 Júlí 2019 09:00
Margt hefur breyst í áranna rás og þess sér m.a. merki þegar rýnt er í gamlar heimildir eins og við höfum verið gera hér á lögregluvefnum í sumar. Núna tókum við fram lögreglusamþykkt Reykjavíkur frá árinu 1939 og fórum að fletta aðeins í gegnum hana, en á einum stað má t.d. lesa þetta: „Skyldur er hver hundeigandi að hafa helsi á hundum sínum með áletruðu Rvk og tölu. Bæjarsjóður útvegar merkisspjöldin, en lögreglustjóri afhendir þau eigendum hundanna, gegn greiðslu andvirðis þeirra, sem rennur í bæjarsjóð. Hver hundur, sem ekki ber slíkt helsi eða fylgir utanbæjarmanni, er réttdræpur, ef eigandi hirðir hann ekki og greiðir áfallinn kostnað innan viku eftir að hundurinn hefir verið auglýstur.“ Og á öðrum stað er tiltekið sérstaklega hverjir megi fara með hunda um bæinn. „Hundar mega ekki fara um kaupstaðarlóðina, nema fulltíða maður leiði þá í bandi.“
Fleiri dýr koma við sögu í lögreglusamþykktinni. „…lausa hesta má ekki reka um götur bæjarins, nema útflutningshross til skipa og innanbæjarhesta, sem fluttir eru úr haga og í. Fælnir og slægir hestar mega aldrei ganga lausir. Hesta, sem leika sér eða fara á hlaupum um göturnar, skal handsama. Hesta, sem ráfa umhirðulausir um götur bæjarins, skal lögreglan hýsa og fóðra.“ Sérstök ákvæði er líka að finna um nautgripi. „Nautgripir, sem færðir eru til bæjarins, skulu ávallt leiddir í bandi nægilegu traustu, og skal næg gæzla höfð á. Það er með öllu bannað að binda nautgrip í tagl á hesti.“
Og að síðustu grípum við niður í kafla samþykktarinnar, sem ber heitið Um reið, hestaflutning og akstur á götum bæjarins. „Á almannafæri má ekki ríða eða aka hraðara en á hægu brokki, og þar sem mikil er umferð, gatan mjó eða farartálmi á veginum, skal aðeins fara fót fyrir fót. Lögreglan getur skipað svo fyrir, hvenær sem nauðsyn þykir, að fara skuli aðeins fót fyrir fót á tilteknu svæði, og þar sem margir vagnar koma saman á einn stað, getur hún raðað þeim eða skipað þeim að nema staðar um stund. Ríðandi menn og vagnstjórar skulu í tæka tíð gera viðvart mönnum, sem á undan þeim ganga. Eigi má ríða eða aka um gangstéttir bæjarins.“