28 Október 2018 14:50
Karlmaður á sextugsaldri var í fyrradag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald, eða til 2. nóvember, á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á meintu peningaþvætti. Lagt var hald á verulega fjármuni, en fasteign mannsins hefur verið kyrrsett og hald lagt á bankareikninga og ökutæki hans. Þá lagði lögregla hald á töluvert magn af lyfseðilsskyldum lyfjum, sem hún hefur grun um að hafi verið ætluð til endursölu á svörtum markaði. Verðmæti eigna og fjármuna, sem hafa verið kyrrsettar og haldlagðir vegna málsins, hleypur á tugum milljóna. Maðurinn, sem hefur áður komið við sögu hjá lögreglu, var handtekinn í umdæminu sl. fimmtudag, en húsleit var framkvæmd á heimili mannsins að undangengnum dómsúrskurði. Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.
Við minnum á upplýsingasíma lögreglu 800 5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um skipulagða brotastarfsemi, eða önnur brot sem fólk hefur vitneskju um. Ábendingum um brot má jafnframt koma á framfæri í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.