17 September 2018 18:21
Tveir karlar á þrítugsaldri voru í gærkvöld í Héraðsdómi Reykjaness úrskurðaðir í gæsluvarðhald til föstudags, 21. september, að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á ráni í fyrirtæki í Hafnarfirði á laugardagskvöld. Annar mannanna var handtekinn rétt við vettvanginn áður en tilkynning um ránið barst lögreglu, en það voru árvökulir lögreglumenn við eftirlitsstörf sem veittu grunsamlegum manni athygli og stöðvuðu för hans. Sá var með muni meðferðis, m.a. fjármuni, sem hann gat ekki gert grein fyrir. Hinn maðurinn var svo handsamaður á svipuðum slóðum ekki löngu síðar og voru þeir báðir færðir til yfirheyrslu á lögreglustöð. Starfsmanni í fyrirtækinu þar sem ránið var framið, var eðlilega illa brugðið en viðkomandi varð þó ekki fyrir meiðslum.