11 Apríl 2023 14:37

Það var í mörg horn að líta hjá lögreglunni um páskahelgina, en tuttugu og fjórir ökumenn voru teknir fyrir ölvunar- og/eða fíkniefnaakstur á höfuðborgarsvæðinu. Um þriðjungur þeirra hafði þegar verið sviptur ökuleyfi eða aldrei öðlast ökuréttindi. Til viðbótar stöðvaði lögreglan för fjögurra annarra ökumanna sem höfðu sömuleiðis verið sviptir ökuleyfi. Allmargir ökumenn voru einnig staðnir að hraðakstri, en hinir sömu eiga sekt yfir höfði sér. M.a. tveir sem óku um Suðurlandsveg á 146 og 150 km hraða. Þeirra bíður sekt upp á 210 þúsund kr. og svipting ökuréttinda í einn mánuð. Tuttugu umferðarslys og óhöpp voru enn fremur skráð hjá lögreglu á sama tímabili.

Þá var tilkynnt um tuttugu og tvær líkamsárásir, þar af tvær alvarlegar, og ellefu sinnum var lögreglan kölluð til vegna heimilisofbeldis. Um páskana var líka nokkuð um innbrot, m.a. í fimm fyrirtæki og verslanir, þrjár geymslur, tvær bifreiðar og eitt heimili. Fjórum bifreiðum var stolið um páskana, en þær eru allar komnar í leitirnar.