18 Apríl 2024 17:22
Í dag var stofnað til svæðisbundins samráðs um aðgerðir gegn ofbeldi og öðrum afbrotum undir yfirskriftinni Öruggara Suðurland. Að verkefninu standa embætti sýslumanns á Suðurlandi, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Fjölbrautaskólinn á Suðurlandi, Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu, Menntaskólinn að Laugarvatni, barnavernd- og félagsþjónusta allra sveitarfélaga í umdæminu, sem eru alls 14 talsins og embætti lögreglustjórans á Suðurlandi sem jafnframt stýrir verkefninu.
Markmiðið með verkefninu er að stofnanir og kerfi ríkis og sveitarfélaga vinni saman að því að tryggja og þróa grundvöll fyrir afbrotavarnir með sameiginlegum áherslum. Efla samvinnu við úrlausn mála m.a. samkvæmt farsældarlögum og að vinna tölfræði sem miðuð er við sameiginlegar skilgreiningar samstarfsaðila.
,,Það er gríðarlega mikilvægt að við snúum bökum saman í baráttunni gegn ofbeldi og öðrum afbrotum – það að kerfin tali saman, bætt viðbragð og aukin skilvirkni getur léttundir með fólki sem býr við ofbeldi og getur hreinlega verið spurning um mannslíf“ sagði Grímur Hergeirsson, lögreglustjóri á Suðurlandi, við opnun stofnfundar verkefnisins Öruggara Suðurland.