1 September 2009 12:00
Eins og dæmin sanna er aldrei of varlega farið þegar Netið er annars vegar. Þetta er rifjað upp hér vegna máls sem kom á borð lögreglunnar í sumar. Stúlka á fermingaraldri komst í kynni við mann í gegnum Netið og mæltu þau sér mót í verslunarmiðstöð á höfuðborgarsvæðinu. Þau fóru síðan á almenningssalerni á staðnum en þar setti maðurinn lokk eða pinna í nafla stúlkunnar að hennar ósk. Nokkru síðar var kominn gröftur í naflann og þurfti stúlkan að leita til læknis og var fyrrnefndur hlutur fjarlægður úr naflanum. Málið vekur upp ýmsar spurningar sem verður reyndar ekki svarað hér en það var forráðamaður stúlkunnar sem tilkynnti um það. Mál sem þetta er ekki einsdæmi né heldur hitt að forráðamenn barna og unglinga eru ekki alltaf meðvitaðir um það sem krakkarnir taka sér fyrir hendur. Í þessu tilfelli var foráðamönnum stúlkunnar ókunnugt um það að hún hefði mælt sér mót við ókunnugan mann og í þeim tilgangi sem áður var lýst.
Vegna þessa vill lögreglan benda forráðamönnum barna og unglinga á að kynna sér vefsíður þar sem fjallað er um örugga netnotkun. Ein þeirra er saft.is en á henni er að finna ýmsar gagnlegar ábendingar um þetta efni. M.a. eru birt þar tíu svokölluð netheilræði sem gott er fyrir alla að hafa í huga.