24 Nóvember 2010 12:00
Staða mála á miðborgarsvæðinu er að sumu leyti mun betri en í fyrra og vegur þar einna þyngst að innbrotum hefur fækkað umtalsvert í hverfinu. Þetta á t.d. við um innbrot á heimili en einnig er almennt minna um þjófnaði, sé tekið mið af tilkynningum um slíkt til lögreglu. Frá þessu var skýrt á fundi lögreglunnar með fulltrúum Miðborgarhverfis sem haldinn var í gær. Þar var farið yfir þróun brota á svæðinu og m.a. borin sama fjöldi innbrota frá ársbyrjun til októberloka í samanburði við sama tímabil í fyrra. Niðurstöðurnar eru einkar ánægjulegar hvað þetta varðar en í sumum öðrum málum er þó enn nokkuð verk að vinna. Þar má bæði nefna að tilkynningar um eignaspjöll í þessum borgarhluta standa nánast í stað á milli ára og ofbeldisbrot á þessu ári eru ívið fleiri en í fyrra. Tölfræði frá fundinum má annars nálgast hér.
Eins og flestir vita hefur miðborgin ákveðna sérstöðu í umdæminu. Þangað koma þúsundir gesta, m.a. til að skemmta sér, og því miður eru þeir ekki allir til fyrirmyndar. Brot í miðborginni skrifast því að stærstum hluta á utanaðkomandi aðila en ekki íbúana sjálfa. Sumir hinna síðarnefndu eru reyndar orðnir þreyttir á ástandinu sem þeir segja fylgja skemmtanahaldi í miðborginni og vilja úrbætur. Þeir hafa bent á ónæði sem stafar af næturlífinu en því verður varla breytt á meðan skemmtistaðir eru á svæðinu. Á fundinum var talað um að finna skemmtistöðunum aðra staðsetningu og /eða breyta opnunartíma þeirra. Hugmyndir sem þessar eru reyndar ekki nýjar af nálinni en lögreglan hefur áður komið sambærilegum hugmyndum á framfæri við borgaryfirvöld.
Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is