11 Mars 2008 12:00
Sextán ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu um síðustu helgi. Tveir voru stöðvaðir á föstudag, fimm á laugardag, átta á sunnudag og einn aðfaranótt mánudags. Níu voru teknir í Reykjavík, fjórir í Kópavogi og einn í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi. Þetta voru þrettán karlar á aldrinum 18-63 ára og þrjár konur, 17, 19 og 59 ára. Á sama tímabili tók lögreglan fimm ökumenn sem voru undir áhrifum fíkniefna. Þrír voru stöðvaðir í Reykjavík og tveir í Kópavogi. Þetta voru allt karlar, fjórir þeirra eru um tvítugt en einn er fertugur.
Áttatíu og tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina en fjögur þeirra má rekja til ölvunaraksturs. Flest óhöppin voru minniháttar en í nokkrum tilvikum þurfti þó að flytja fólk á slysadeild. Í ellefu tilfellum var um afstungu að ræða.