25 Janúar 2011 12:00
Karl á fertugsaldri var tekinn fyrir hraðakstur á Miklubraut á laugardagskvöld en bíll hans mældist á 127 km hraða á þeim hluta vegarins þar sem er 80 km hámarkshraði. Slíkt er kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir þá staðreynd að sami maður var stöðvaður fyrir hraðakstur á nýjan leik rúmlega hálftíma seinna. Þá var hann á ferð á öðrum stað í borginni þar sem hámarkshraði er einnig 80 km en bíll mannsins mældist þá á 123 km hraða. Aðspurður um hraðaksturinn sagðist ökuþórinn vera að flýta sér í bíó! Ætla mætti að einhver hefði nú lært af reynslunni en það virðist þó ekki eiga við um þennan ökumann því bíll hans fannst mannlaus og utan vegar í öðru sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu nokkrum klukkutímum síðar. Af ummerkjum að dæma er ekki ósennilegt að maðurinn hafi haldið uppteknum hætti og síðan misst stjórn á bílnum með fyrrgreindum afleiðingum. Bíllinn er mikið skemmdur og þurfti að kalla til dráttarbifreið svo koma mætti honum af vettvangi. Þess má geta að umræddur ökumaður hefur alloft áður gerst sekur um umferðarlagabrot.