10 Maí 2017 14:56
Um helgina var lögregla við hraðamælingar, eins og mikið er gert af nú um stundir, enda er það okkar reynsla að bensínfótur sumra eigi til að þyngjast töluvert þegar sumarið nálgast. Við mælingar við Gullinbrú vildi ekki betur til en svo, að lögregla mældi kraftmikla sportbifreið sem ekið var á 161 km/klst. hraða, en á svæðinu er 60 km/klst. hámarkshraði.
Ökumaðurinn reyndist vera ungur að árum, rétt rúmlega tvítugur og var að sjálfsögðu sviptur ökuréttindum á staðnum og á von á hraustlegri sekt. Sú niðurstaða er þó mögulega besta útkoma enda aksturinn algerlega glórulaus og veldur slíkt hátterni mikilli hættu. Ökumaður gekkst ekki við brotinu og neitaði raunar að skrifa undir skjöl varðandi ökuleyfissviptingu, en var skírteini mannsins þó tekið í vörslur lögreglu og hann minntur á að háar sektir og viðurlög væru við því að aka sviptur ökuréttindum. Sumarið er sannarlega tíminn – en hraðatakmörk þarf að virða, ef forðast á háar sektir og jafnvel sviptingar ökuréttinda.