14 Janúar 2003 12:00
Fréttatilkynning um samantekt ríkislögreglustjórans á ofbeldi gagnvart lögreglumönnum
Lokið er hjá embætti ríkislögreglustjóra athugun og úttekt á málum er lúta að ofbeldi gagnvart lögreglumönnum á árinu 2001. Í málaskrá lögreglu eru brot þessi flokkuð sem brot gegn valdstjórninni, sbr. 106. og 107. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt ákvæðunum getur hámarksrefsing numið allt að sex og átta ára fangelsi. Niðurstöður athugunar hafa þegar verið sendar dómsmálaráðherra, ríkissaksóknara og lögreglustjórum ásamt ábendingum um breytta skráningu málanna með vísan til lögreglulaga og um meðferð þeirra samkvæmt því.
Á árinu 2001 voru málin 81 sem er nokkur fækkun milli ára.
Í flestum tilvikum mátti rekja upphaf máls til þess að fyrirmælum lögreglu var ekki hlýtt, eða í 60% tilvika, fyrirvaralausar árásir voru í 20% tilvika, tæplega 10% þegar lögregla er hindruð í starfi, lögreglumönnum var hótað í 6% tilvika og annað í 4% tilvika.
Í þessum málum voru 98 einstaklingar kærðir, eða 82 karla og 16 konur.
Í 50 tilvikum hlutu lögreglumenn meiðsl; 16 fengu hnefahögg, 11 voru bitnir, 9 hlutu spörk, 8 slösuðust í átökum við handtekna menn, 3 voru skallaðir í andlit og 3 hlutu meiðsl þegar vopnum var beitt.
Hér eru nokkur dæmi af handahófi:
Dæmi 1Lögreglumenn voru sendir að skóla vegna rúðubrota, sem unglingsdrengir voru grunaðir um. Þeir voru einnig grunaðir um að hafa ráðist að manni í hverfinu. Lögreglumennirnir fundu piltana og þurfti nokkur átök við handtöku þeirra. Þegar lögreglumaður var með einn drengjanna í tökum og var að færa hann í handjárn kom 15 ára gamall piltur og sparkaði í andlit lögreglumannsins. Pilturinn komst undan á hlaupum en borgarar hlupu á eftir honum og sáu til hans þar sem hann hoppaði niður af háum bakka og fótbrotnaði við það. Pilturinn var fluttur á slysadeild vegna áverkanna. Sama var með lögreglumanninn, en hann hlaut heilahristing og yfirborðsáverka á enni. Gleraugu hans brotnuðu og föt rifnuðu.
Pilturinn var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, en fullnustu refsingar var frestað.
Dæmi 2Lögreglumenn stöðvuðu ökumann vegna gruns um ölvun við akstur. Kona sem var farþegi í bifreiðinni hlýddi ekki fyrirmælum lögreglu um að koma út. Hún réðst síðan á lögreglumann og beit hann í handlegg. Lögreglumaðurinn fékk mar.
Konan var dæmd til að greiða 60.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og að greiða verjanda sínum 80.000 krónur í málsvarnarlaun.
Dæmi 3Lögreglumenn voru að aðstoða starfsmenn vínhúsaeftirlits og voru að færa handtekinn mann út í lögreglubifreið er 26 ára karlmaður réðst að þeim. Hann sló og sparkaði til lögreglumanna og reyndi að frelsa þann sem lögregla hafði handtekið. Engin meiðsl hlutust af. Maðurinn var handtekinn, færður í handjárn og gisti fangageymslu lögreglunnar.
Maðurinn hlaut 25.000 króna sekt fyrir brot á ákvæðum lögreglulaga.
Sjá nánar útdrátt úr samantekt ríkislögreglustjórans >>
Ríkislögreglustjórinn
Reykjavík, 14. janúar 2003
Svið 4Fyrirspurnir