14 Mars 2022 17:46
Að gefnu tilefni vill lögreglustjórinn á Vestulandi koma eftirfarandi á framfæri.
Lögreglustjórinn á Vesturlandi hefur haft til rannsóknar ætlað brot á 104. gr. þágildandi laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis, sbr. 124. gr. sömu laga.
Sakborningum málsins var gefið að sök að hafa eftir talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi, ekki sett kjörseðla undir innsigli, þegar talningarstaður var yfirgefinn að morgni sunnudagsins 26. september 2021.
Þann 1. janúar 2022 tóku í gildi ný kosningalög nr. 112/2021. Að mati lögreglustjóra er ekki fjallað með jafn skýrum hætti um skyldu til innsiglunar kjörgagna líkt og var gert í þágildandi kosningalögum nr. 24/2000. Ekki er með beinum hætti fjallað um skyldu til innsiglunar kjörgagna að lokinni talningu í gildandi kosningalögum nr. 112/2021.
Í 1. mgr. 2. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 kemur fram að hafi refsilöggjöf breyst eftir að verknaður var framin, eigi að dæma eftir nýju lögunum. Það á bæði við um refsinæmi verknaðar og refsingu og á það við í þessu tilfelli.
Þar sem ekki er fjallað með beinum og skýrum hætti um skyldu til þess að innsigla kjörgögn að lokinni talningu í nýju kosningalögunum, ólíkt því sem var í eldri lögum, telur lögreglustjóri vafa vera til staðar um refsinæmi ætlaðs brots sakborninga. Þann vafa ber að túlka sakborningum í hag með vísan til þeirrar meginreglu sem kemur fram í 108. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Með hliðsjón af framangreindu; komst lögreglustjóri að þeirri niðurstöðu að það sem fram væri komið í rannsókn málsins væri ekki nægjanlegt eða líklegt til sakfellis og hefur málið því verið fellt niður.