21 Janúar 2009 12:00
Um tuttugu manns voru færðir á lögreglustöð til skýrslutöku eftir að mótmæli við Alþingishúsið í gær fóru úr böndunum. Rúður voru brotnar og eldur kveiktur á minnst tveimur stöðum í miðborginni en beita þurfti bæði varnarúða og kylfum. Lögreglumenn voru grýttir með grjóti, glerflöskum, matvælum, mold og drullu.
Hópur fólks safnaðist saman við Alþingishúsið um eittleytið í gær og hóf kröftug mótmæli, m.a. með því að banka mjög hressilega í glugga þinghússins. Síðdegis fækkaði í hópi mótmælenda en þeim fjölgaði svo aftur er líða tók á kvöldið. Um þrjúleytið í nótt var kyrrð að mestu komin á í miðborginni. Um fimmleytið var síðasti mótmælandinn keyrður til síns heima en um var að ræða konu á miðjum aldri. Hún hafði staðið lengi við Alþingishúsið og var orðin skjálfandi af kulda. Ekki er vitað til þess að neinn hafi slasast alvarlega í þessari óskemmtilegu uppákomu í gær og nótt.