22 Janúar 2009 12:00
Sjö lögreglumenn slösuðust þegar mótmæli í miðborginni fóru úr böndunum annan daginn í röð. Líkt og á þriðjudag rigndi grjóti og glerflöskum yfir lögregluna um tíma. Sem fyrr söfnuðust mótmælendur saman við Alþingishúsið eftir hádegi en um tvöleytið hélt hópurinn að Stjórnarráðinu. Þar var gerður aðsúgur að forsætisráðherra og rúða brotin. Mótmælendur héldu síðan aftur að Alþingishúsinu og síðdegis voru kveiktir nokkrir eldar á Austurvelli. Nokkrar rúður voru brotnar í þinghúsinu og aðrar skemmdar. Einn lögreglumaður varð fyrir meiðslum og annar slasaðist á fæti.
Um áttaleytið fóru mótmælendur að Þjóðleikhúskjallaranum og kveiktu þar bál. Undir miðnætti fór hópurinn aftur að Alþingishúsinu og var rúða brotin í útihurð þess. Þrír lögreglumenn slösuðust þegar í þá var hent grjóti. Nokkru eftir miðnætti slösuðust tveir lögreglumenn til viðbótar en annar þeirra fékk hellustein í höfuðið. Lögreglan beitti fyrst varnarúða og síðan táragasi til að hafa hemil á mótmælendum sem héldu þessu næst aftur að Stjórnarráðinu. Þar lauk aðgerðum lögreglu um þrjúleytið.