6 Apríl 2006 12:00
Í gær þann 5.apríl var lögreglan í Reykjavík með hraðamælingar á helstu stofnbrautum í borginni. Skemmst er frá því að segja að ökuhraði er alltof mikill. 16 ökumenn voru kærðir þar sem þeir óku á hinum ýmsu stofnbrautum, af þessum 16 ökumönnum voru 13 á yfir 100 km/klst sem verður að teljast vítaverður akstur. Sá sem hraðast ók var stöðvaður á Bústaðavegi þar sem 60 km/klst hámarkshraði, á 134 km/klst hraða. Lögreglan mun halda áfram að mæla á stofnbrautum jafnt og í íbúðarhverfum með það að leiðarljósi að auka öryggi vegfarenda borgarinnar.
Ökumenn verða sjálfir að líta í eigin barm og stilla hraða í hóf, þannig að ofangreindar mælingar verði vonandi ekki að daglegum verkefnum hjá lögreglunni.