19 September 2007 12:00
Um kl. 17:15 barst lögreglu tilkynning um að maður hafi fallið í Sogið til móts við bæinn Bíldsfell. Björgunarsveitir í nágrenninu voru þegar kallaðar út auk þess sem lögregla og sjúkraflutningamenn fóru á vettvang.
Tildrög slyssins munu hafa verið þau að þrír menn voru við veiðar í Soginu, að austanverðu, til móts við Bíldsfell. Þeir höfðu vaðið djúpt út í ána og munu tveir þeirra, feðgar, 26 og 53 ára, hafa misst fótana en sá þriðji, bróðir föðursins, komst til lands til að kalla eftir aðstoð. Bóndinn á Bíldsfelli og veiðimenn á vestari bakka árinnar munu hafa orðið slyssins varir. Brugðust þeir skjótt við og fóru með bát á ána og tókst að bjarga öðrum þeirra sem enn var í ánni og var hann fluttur um borð í sjúkrabifreið sem kom fljótlega á vettvang og með henni á sjúkrahús í Reykjavík. Hann var kaldur og hafði fengið vatn ofan í sig en er ekki talinn í lífshættu. Hinn maðurinn hefur enn ekki fundist.
Fast að 100 manns eru við leit nú þegar þetta er ritað en leitin fer fram úr lofti með þyrlu Landhelgisgæslunnar og einkaflugvél, úr fjölda báta og með leitarhund. Auk þess eru bakkar árinnar gengnir. Þá eru kafarar að skipuleggja köfun á svæðinu.