8 Maí 2008 12:00
Lögreglan leitar nú tveggja manna vegna alvarlegrar líkamsárásar í miðborg Reykjavíkur aðfaranótt sumardagsins fyrsta, eða 24. apríl sl. Um hálffimmleytið umrædda nótt kom til átaka utan við skemmtistaðinn Tunglið í Tryggvagötu en þau bárust eftir vestanverðri götunni og virðist þeim hafa lokið við Grillhúsið, sem er steinsnar frá. Í þessum átökum slasaðist karlmaður af asískum uppruna mjög illa en hann fékk mikla höfuðáverka og man lítið eftir atburðarásinni. Maðurinn er á þrítugsaldri en árásarmennirnir tveir eru taldir vera á aldrinum 17-25 ára. Þeir eru báðir kraftalega vaxnir og með stutt, dökkt hár. Annar þeirra var klæddur í gallabuxur og bláa, köflótta skyrtu en hinn var í hvítum bol og með tattú á hendi.
Þeir sem búa yfir upplýsingum sem geta varpað ljósi á málið eru beðnir að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1100.