24 Janúar 2014 12:00

Alls hafa 34  lögreglumenn og löglærðir fulltrúar hvaðanæva af landinu sótt sérnámskeið um rannsóknir kynferðisbrota í framhaldsdeild Lögregluskóla ríkisins. Námskeiðið hófst í byrjun desember og því lauk nú í dag. Það var skipulagt í samvinnu Lögregluskólans, ríkissaksóknar og lögreglustjóra en einnig kom lagadeild Háskólans í Reykjavík að undirbúningi og síðan kennslu. Markmið námskeiðsins var að efla rannsóknir kynferðisbrota og dýpka þekkingu innan lögreglunnar á eðli þeirra ekki síst þar sem börn koma við sögu.   

Mikil áhersla var lögð á skýrslutökur og þverfaglega samvinnu en einnig rannsóknarstjórnun og möguleika tæknirannsókna í málaflokknum o.fl. Þátttakendur voru frá öllum lögregluembættum sem hafa rannsóknardeildir.  

Lögregluskólinn fékk sérstakan stuðning stjórnvalda til þess að halda námskeiðið í samræmi við tillögur samráðshóps forsætisráðherra um samhæfða framkvæmd stjórnvalda við að tryggja skilvirk úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota, einkum börn.  Meðal annarra kennara voru Philip James Morris og Stephen John Retford. Þeir eru mikilsmetnir leiðbeinendur og þjálfara í yfirheyrslum og yfirheyrslutækni og áður hefur íslenska lögreglan sent nokkra lögreglumenn til þeirra til þjálfunarmiðstöðvar bresku lögreglunnar í yfirheyrslum í Machester í Englandi.

       

Leiðbeinendur yfirheyrsluhluta námskeiðsins                          Alls sátu 34 þátttakendur námskeiðiðásamt deildarstjóra framhaldsdeildar LSR