7 Ágúst 2020 10:18
Einn lögreglumaður hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur verið greindur með COVID-19, en talið er að viðkomandi hafi ekki smitast við störf sín hjá embættinu. Gripið var til allra viðeigandi ráðstafana strax og málið kom upp í gær og voru þrettán aðrir lögreglumenn sendir í sóttkví vegna þessa, en að auki eru fimm lögreglumenn til viðbótar í úrvinnslusóttkví. Nú er unnið að því að tryggja mönnun á vaktir vegna þeirrar stöðu sem upp er komin og miðar þeirri vinnu vel.
Þess má geta að embættinu var skipt upp í sótthólf frá og með hádegi sl. föstudag, 31. júlí, og því hefur ofangreint áhrif á eina lögreglustöð í umdæminu, en ekki allar fjórar.