5 Mars 2024 16:52
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stendur nú fyrir umfangsmiklum aðgerðum í umdæminu og utan þess vegna rökstudds gruns um mansal, peningaþvætti, brotum á atvinnuréttindum útlendinga og gruns um skipulagða brotastarfsemi. Aðgerðirnar hófust fyrir hádegi og munu standa yfir fram eftir degi, en í þeim felst m.a. að ráðist er í húsleitir á fjölmörgum stöðum.
Aðgerðirnar eru unnar í samvinnu við lögregluliðin á Suðurlandi, Suðurnesjum og Norðurlandi eystra, embætti ríkislögreglustjóra, Tollgæsluna, Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun, ASÍ, velferðarsvið Reykjavíkurborgar, barnaverndaryfirvöld í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði, félagsþjónustuna í Kópavogi og Hafnarfirði, heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Bjarkarhlíð.