27 Maí 2009 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar nú að tveimur leigubílstjórum sem hún þarf að hafa tal af vegna máls sem er til rannsóknar hjá embættinu. Annar þeirra var að störfum í miðborginni á uppstigningardag en í bíl hans kl. 5.40 um morguninn kom par og ók hann því til Hafnarfjarðar. Um er að ræða karl af erlendum uppruna, dökkan á hörund og með derhúfu, og íslenska konu með ljóst hár. Hinn bílstjórinn, sem lögreglan óskar að ræða við, er talinn hafa ekið þessum sama manni nokkru síðar, eða um klukkan 7 að morgni uppstigningardags. Talið er að viðkomandi hafi þá tekið leigubíl í nágrenni Kaplakrika í Hafnarfirði.
Þeir sem geta veitt upplýsingar um málið eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1100.