1 Nóvember 2006 12:00
Lögreglan í Reykjavík leitar nú 5-6 manna í tengslum við tvö auðgunarbrot í borginni. Tildrögin eru þau að í gærmorgun, þriðjudaginn 31. október, var veist að tveimur blaðberum, öðrum í Hjallalandi klukkan 5.59 en hinum á Brúnavegi við Kleifarveg klukkan 7.17. Talið er líklegt að gerendur séu hinir sömu í báðum tilfellum. Í báðum tilvikum var komið aftan að blaðberunum og þeir krafðir um peninga. Hvorugur þeirra var með fjármuni en mennirnir stálu farsímum þeirra.
Talið er að ofangreindir menn séu á aldrinum 16-19 ára. Einn var 180-183 cm á hæð með brúnt, stuttklippt hár. Hann er jafnframt sagður sólbrúnn og hugsanlega með brún augu. Hann var í hvítri skyrtu með röndum, hugsanlega köflóttri. Annar þessara manna var um 170 cm á hæð, búlduleitur og brúnhrokkinhærður. Talið er að hann hafi klæðst blárri peysu. Þriðja manninum er lýst jafnháum, eða 170 cm á hæð, en hann er sagður grannleitur með brúnt, stutt hár. Samkvæmt lýsingu voru mennirnir á svartri BMW-bifreið, fjögurra dyra með skyggðar afturrúður.
Þeir sem geta gefið upplýsingar um hverjir kunna að hafa verið þarna að verki eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í Reykjavík í síma 843-1214 eða 444-1102.