1 Mars 2018 17:01
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar ökumanns dökkrar bifreiðar (amerískrar?) sem ók aftan á Toyotu Hilux sem við það kastaðist áfram á Toyotu Yaris, en öllum bílunum var ekið suður Höfðabakka í Reykjavík, á móts við Mjólkursamsöluna, þegar þetta gerðist um kl. 8.22 í morgun, fimmtudaginn 1. mars. Tjónvaldurinn fór strax af vettvangi án þess að skeyta frekar um óhappið eða hugsanleg meiðsli annarra ökumanna og farþega, en minnst einn þeirra sem í lenti í árekstrinum fann fyrir eymslum.
Þeir sem búa yfir vitneskju um dökkleitu bifreiðina og ökumann hennar eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444 1000 en einnig má senda upplýsingar í tölvupósti á netfangið hlynurg@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Lögreglan hvetur jafnframt umræddan ökumann til að gefa sig fram.