29 Ágúst 2012 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar ökumanns Mercedes Benz-bifreiðar sem var ekið á ljósgráan Skoda Octavia á Hafnarfjarðarvegi um tíuleytið í gærmorgun. Báðum bílunum var ekið suður Hafnarfjarðarveg, við Álftanesveg, þegar þetta gerðist en tjónvaldurinn fór strax af vettvangi án þess að skeyta frekar um áreksturinn. Sást hann í framhaldinu aka Álftanesveg í vesturátt. Skodinn er nokkuð skemmdur eftir áreksturinn og Benzinn einnig, en brak úr honum fannst á vettvangi. Af því má mögulega ráða að um sé að ræða bíl af gerðinni E-200. Bíllinn er talinn vera ljósbrúnn að lit og gæti verið árgerð 1989-1992.
Þeir sem búa yfir vitneskju um bílinn og ökumanninn eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Upplýsingum má einnig koma á framfæri á netfangið abending@lrh.is en lögreglan hvetur jafnframt ökumanninn til að gefa sig fram.