22 Febrúar 2016 11:12
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar enn að karlmanni sem var á ferli í Móabarði í Hafnarfirði sl. mánudagsmorgun, 15. febrúar, um kl. 8 vegna máls sem hún hefur til rannsóknar. Maðurinn, sem er um 180 sm á hæð og fölleitur, var dökklæddur og með svarta húfu og svarta hanska. Hann er talinn vera á aldrinum 35 – 45 ára. Lögreglan leitar enn fremur upplýsinga um mannaferðir á sama stað í gærkvöld, sunnudaginn 21. febrúar, um kl. 20. Rannsókn lögreglu snýr að tveimur alvarlegum tilvikum sem beinast gegn sama einstaklingi, en síðara tilvikið átti sér stað í gærkvöld á áðurnefndum tíma.
Þeir sem geta veitt upplýsingar um manninn og ferðir hans eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444 1000, en upplýsingum má einnig koma á framfæri á netfangið abending@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.