24 Ágúst 2015 10:33
Í vikunni sem leið voru alls 4 ökumenn kærðir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum. Tveir í miðbæ Ísafjarðar, sá fyrri mánudagskvöldið 17. ágúst og hinn að kveldi fimmtudagsins 20. s.m. Sá síðarnefndi var einnig kærður fyrir of hraðan akstur og að aka sviptur ökuréttindum. Þriðji ökumaðurinn var stöðvaður, ný kominn til Ísafjarðar frá Reykjavík að kveldi 20. ágúst. Við leit í bifreiðinni fannst um 70 gr. af kannabisefnum. Fíkniefnaleitarhundurinn Tindur aðstoðaði lögreglumenn við leitina að efnum í bifreiðinni. Miðað við efnismagnið má ætla að efnin hafi átt að bjóðast til sölu á norðanverðum Vestfjörðum þó eigendur hafi sagt efnið til eigin neyslu. Fjórði ökumaðurinn var stöðvaður aðfaranótt sunnudagsins 23. ágúst á Patreksfirði.
Einn maður gisti fangaklefa á Ísafirði aðfarnaótt 22. ágúst sl. En hann hafði verið handtekinn á veitingahúsi ölvaður og æstur. Maðurinn mun hafa brotið rúðu. Hann var látinn sofa úr sér vímuna.
Ein líkamsárásarkæra barst lögreglunni í vikunni, en hún varðar átök við veitingastað á Ísafirði aðfaranótt 22. ágúst.
22 ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum.
Skráningarplötur voru teknar af alls 9 bifreiðum í umdæmi lögreglustjórans á Vestfjörðum í vikunni. Bifreiðarnar höfðu ekki verið færðar til lögbundinnar skoðunar.
Þrír ökumenn voru kærðir fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu á gatnamótum.
Einn ökumaður vöruflutningabifreiðar var kærður í vikunni fyrir að vera með of þungan farm, umfram leyfilegan heildarþunga ækisins.
Tilkynnt var um tvö umferðaróhöpp í liðinni viku. Um var að ræða bifreið sem valt út af veginum að Rauðasandi um miðjan dag þann 19. ágúst sl. Einn farþegi var í bifreiðinni, auk ökumanns. Hvorugan sakaði enda báðir spenntir í öryggisbelti. Bifreiðin var óökufær eftir óhappið. Þá valt bifreið út af veginum við Kambsnes, milli Álftafjarðar og Seyðisfjarðar um miðjan dag þann 21. ágúst. Í fyrstu var talið að ökumaður og farþegi hafi slasast og var viðbragð lögreglu og sjúkraflutningsmanna í samræmi við það. Þegar á vettvang kom reyndust ökumaður og farþegi óslasaðir. Þeir voru spenntir í öryggisbelti.
Eins og oft vill verða á þessum árstíma hafa lögreglunni borist tilkynningar um að ekið hafi verið á búfé í umdæminu. Bændur eru hvattir til að reyna eftir fremsta megni að halda búfé fjarri vegum og að sama skapi eru ökumenn hvattir til að gæta sérstakrar varúðar í þessu sambandi.