25 Mars 2022 10:19
Af heimasíðu Ferðamálastofu:
Eldgosið á Reykjanesi á síðasta ári var fjölsóttasti ferðamannastaður landsins. Þúsundir innlendra og erlendra ferðamanna heimsóttu gosstöðvarnar, mest dagana eftir að eldgosið hófst. Alls hafa nú um 370 þúsund ferðamenn heimsótt svæðið. Bregðast þurfti skjótt við enda varð til ferðamannastaður í fjalllendi Reykjaness um vetur. Strax í upphafi þurfti að gæta að öryggi ferðamanna á svæðinu með uppbyggingu aðstöðu og stjórnun aðstæðna.
Lögreglan á Suðurnesjum gegndi frá fyrsta degi gossins lykilhlutverki við stjórnun svæðisins í nánu samstarfi við fjölmarga aðra. Alltaf var í forgrunni að tryggja öryggi ferðamanna með margvíslegum aðgerðum, ýmist fyrirbyggjandi eða með stýringu og leiðsögn. Lögreglan á Suðurnesjum gætti þess alltaf að greiða götu þeirra sem heimsóttu þennan magnaða áfangastað án þess að fórna neinu er varðaði öryggi svæðisins og gesta. Það er því vel við hæfi að í fyrsta sinn sem Ferðamálastofa og Slysavarnafélagið Landsbjörg afhenda þessi öryggisverðlaun sé það lögreglan á Suðurnesjum sem fái þau afhent með þakklæti fyrir góða stýringu á ferðamannastað þar sem reynt var að tryggja upplifun og aðgengi á öruggan hátt.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra afhenti Úlfari Lúðvíkssyni lögreglustjóra á Suðurnesjum verðlaunin sl. þriðjudag á málþingi um öryggi ferðamanna sem haldið var í Grindavík.