5 Nóvember 2016 13:29
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tekur mjög alvarlega þá gagnrýni sem hún fær í Fréttablaðinu og á visir.is í dag, en þar er lögreglan sökuð um að hunsa Fellahverfi í Breiðholti og bregðast seint og illa við útköllum í hverfinu. Lögreglan hefur verið í nánu sambandi við hverfasamtökin á svæðinu og mun skoða ítarlega hvernig eftirliti lögreglu í hverfinu er háttað og hvort hægt sé að gera betur í þeim efnum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leggur áherslu á að þjóna öllum íbúum í umdæminu með sama hætti og þar eru Breiðhyltingar svo sannarlega ekki undanskildir. Ásökunum um að lögreglan geri greinarmun á fólki eftir þjóðerni er hins vegar vísað alfarið á bug.