7 September 2019 09:00
Á þessum vettvangi í sumar hefur reglulega verið gluggað í gamlar heimildir um eitt og annað sem snýr að starfi lögreglumanna. Þessa vikuna hefur skrifari komist í reglur fyrir Lögregluna í Reykjavík, sem gefnar voru út árið 1933. Þar kennir ýmissa grasa og er heftið hin áhugaverðasta lesning, en í fyrsta kaflanum, um skyldur lögreglunnar almennt, 10. gr, segir orðrétt: „Þótt sjerhver lögregluþjónn eigi að framkvæma löggæsluna með festu og áhuga verður hann þó umfram allt að vera rólegur og kurteis. Þótt lögregluþjónn sje skammaður og svívirtur, á hann alls ekki að láta það reita sig til reiði, nje koma því til leiðar að hann beiti ruddaskap eða óviðeigandi hörku.“ Í 13. gr reglnanna er líka að finna leiðbeiningar um handtökur. „Þegar lögregluþjónn hefir tekið mann fastan og færir hann til varðstöðvarinnar eða fangahússins, á hann að láta hinn handtekna ganga við hlið sjer eða rjett á undan. Hann má hvorki á leiðinni, í fangahúsinu eða á varðstöðinni skeggræða við hinn handtekna. Sjerstaklega er þetta stranglega bannað, ef maður er handtekinn og grunaður um afbrot. Viðræða lögregluþjónsins getur þá oft stórspilt fyrir heppilegri rannsókn málsins. Ef fleiri en einn hafa verið handteknir, ber lögregluþjóninum að sjá um að þeir ræði ekki saman.“
Í þriðja kaflanum í heftinu er vikið sérstaklega að reglum fyrir götulögregluna og þar er 20. gr. nokkuð ítarleg, en hún er svohljóðandi: „Hver götu-lögregluþjónn verður að þekkja og vita nákvæmlega nöfnin á þeim götum, stígum og torgum, sem hverfi hans nær yfir. Hann skal reyna að afla sjer kunnugleika á því hver býr í hverju húsi og hvernig þeir líta út, svo hann sje viss um að þekkja þá í sjón. Ennfremur skal hann kynna sjer:
1. Hvar gengið er inn í hús, sem eru í hans hverfi.
2. Hvar eru fylgsni.
3. Hvar læknar búa.
4. Hvar ljósmæður búa.
5. Hvar brunaboðar eru.
6. Hverjir hafa veitingaleyfi, verslunarleyfi o.s.frv.
7. Hvernig húsakynnum er háttað á veitingastöðum.
8. Lauslætiskonur: hvar þær búa, nöfn þeirra og viðurnefni.“