1 Janúar 2025 11:57
Þrír eru í haldi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á líkamsárás í húsi á Kjalarnesi á nýársnótt. Tilkynning um málið barst lögreglu skömmu fyrir klukkan eitt og var hún með mikinn viðbúnað vegna þessa. Svo virðist sem ósætti og ágreiningur hafi komið upp hjá mönnum í húsinu og í framhaldinu var hnífi beitt. Nokkrir hlutu áverka, en einn þó sýnu verst og er sá alvarlega slasaður eftir atlöguna. Hinir handteknu eru allir á fimmtugsaldri, rétt eins og sá sem slasaðist mest.
Við aðgerðirnar á Kjalarnesi í nótt naut Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra.
Ekki er hægt að greina frekar frá málinu að svo stöddu.