16 Janúar 2020 15:17
Uppfært kl. 17:30
Karl og kona sem fundust látin á Sólheimasandi fyrr í dag eru frá Kína. Þau voru fædd 1999 og 1997. Vinnu á vettvangi er lokið en rannsókn málsins heldur áfram næstu daga. Dánarorsök mun ekki ligga fyrir fyrr en að aflokinni krufningu.
Eldri færsla:
Kl. 11:55 í morgun fékk lögreglan á Suðurlandi tilkynningu um að lík konu hafi fundist á Sólheimasandi, skammt frá göngustíg að flugvélarflaki þar. Lögreglumenn fóru þegar á vettvang og í framhaldi af skoðun þeirra á vettvangi var kölluð björgunarsveit til frekari leitar. Um kl. 14:00 fannst lík karlmanns skammt frá þeim stað sem konan lá. Dánarorsök liggur ekki fyrir og verður ekki ljós fyrr en að lokinni krufningu á líkunum. Vísbendingar eru um að um sé að ræða par sem var að ferðast saman og hefur sendiráð viðkomandi ríkis verið upplýst um stöðuna. Bíll sem talinn er í leigu parsins er á bílastæði við Sólheimasand og vitað er að hann fór um Hvolsvöll á austurleið kl. 14:55 þann 13. janúar s.l.
Tæknideildar- og rannsóknarlögreglumenn eru við vinnu á vettvangi og er ekki að vænta upplýsinga af hálfu lögreglunnar að sinni.