9 Apríl 2015 14:45
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á tæpt kíló af sterkum fíkniefnum í umfangsmiklum aðgerðum á dögunum. Um var að ræða um 650 grömm af amfetamíni og 250 grömm af ecstasy (MDMA). Fimm húsleitir voru framkvæmdar á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins, en auk fíkniefna var lagt hald á fjármuni sem grunur leikur á að séu tilkomnir vegna fíkniefnasölu. Þá tók lögreglan einnig í sína vörslu riffil með hljóðdeyfi, en vopnið fannst í fyrrnefndum aðgerðum. Tveir karlar, annar á fertugsaldri og hinn á fimmtugsaldri, voru handteknir í þágu rannsóknarinnar, en þeir hafa áður komið við sögu hjá lögreglu. Við aðgerðirnar naut Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra og fíkniefnaleitarhunds frá tollinum. Rannsókn málsins hefur staðið yfir í nokkurn tíma, og er henni ekki lokið.
Fyrrnefndar aðgerðir eru liður í að hamla gegn sölu, dreifingu og framleiðslu fíkniefna, en lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800 5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.