11 Nóvember 2013 12:00
Vegaframkvæmdir hófust í síðustu viku á Vesturlandsvegi á um kílómetra kafla gegnt Móum á Kjalarnesi. Þær munu standa yfir næstu tvær vikur. Vegmerkingar eru uppi sem vara ökumenn við framkvæmdunum auk þess sem leyfilegur ökuhraði er tekinn niður úr 90 km/klst í 50 km/klst.
Þrátt fyrir merkingar hafa ökumenn því miður ekki sinnt þeim sem skyldi, ekið hraðar en hámarkshraði segir til um og skapað þeim hættu sem að framkvæmdunum starfa.
Á vegarkaflanum er föst hraðamyndavél og mun hún virkjuð til að fylgjast með og mynda þá ökumenn er aka hraðar en 50 km/klst. Þeir mega því búast við sektum í kjölfarið.
Lögregla vill nota tækifærið til að hvetja ökumenn til að virða hraðamerkingar á vinnusvæðum en á því hefur á stundum verið misbrestur.