8 Nóvember 2013 12:00
Það er ekki oft sem lögreglan er kölluð til út af kveðskap. Sú var þó raunin einn daginn og fóru tveir fílefldir lögreglumenn á vettvang, sem var fjölbýlishús á höfuðborgarsvæðinu. Lögreglumennirnir töldu sig reyndar vera að sinna hefðbundnu hávaðaútkalli, en svo var alls ekki. Þegar á staðinn var komið fóru þeir í íbúð í húsinu, en hávaðaseggurinn var þar innandyra. Hljóðin úr íbúðinni fóru ekki framhjá nokkrum manni og runnu tvær grímur á laganna verði, sem eru samt ýmsu vanir. Þetta voru hljóð sem þeir heyra ekki á hverjum degi, og greinilegt að hér var ekkert venjulegt partí í gangi. Reyndar var ekki neinn hefðbundinn gleðskapur í gangi, heldur bara einn maður að kveða rímur. Kvörtun nágrannanna var samt fyllilega skiljanleg. Þetta átti sér stað að næturlagi og maðurinn kvað rímur af miklum þrótti. Hann var því bæði beðinn um að lækka róminn og eins að loka gluggum svona til öryggis. Við svo búið fóru lögreglumennirnir af vettvangi, og bárust ekki frekari kvartanir vegna þessa það sem eftir lifði nætur.