14 September 2012 12:00
Kona á þrítugsaldri lenti í verulegum vandræðum á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Hún hafði gleymt húslyklinum og komst því ekki inn til sín. Konan dó samt ekki ráðalaus og ákvað að klifra upp á þakskyggni hússins og freista þess að komast inn um glugga sem þar er fyrir ofan. Hún náði að komast að glugganum en þá skyndilega vandaðist málið því annað hvort var glugginn of lítill eða konan of stór! Þegar hér var komið sögu treysti konan sér ekki til að klifra sömu leið niður aftur og var því föst ofan á þakskyggninu. Ástandið var tvísýnt en þegar neyðin er stærst þá er hjálpin næst og svo var einnig í þessu tilviki. Það vildi konunni til happs að hún var með síma og gat því hringt í lögregluna. Laganna verðir brugðust skjótt við en mátu síðan stöðuna þannig að betra væri að fá slökkviliðið á staðinn með góðan stiga, fremur en að reyna sjálfir að klöngrast upp á þakskyggnið. Komið var með stigann á vettvang von bráðar og konunni síðan hjálpað niður á jafnsléttu. Henni varð ekki meint af en konan hugðist í framhaldinu ætla að gera aðrar og skynsamlegri ráðstafanir til að komast inn til sín. Hvað í því fólst er ekki alveg vitað en sennilega hefur það gengið eftir því lögreglan var ekki kölluð aftur að húsinu það sem eftir lifði nætur.