7 Maí 2012 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fann um 50 grömm af kókaíni, talsvert af sterum og búnað til framleiðslu á kannabis við húsleit í Norðlingaholti fyrir helgina. Karl á þrítugsaldri var handtekinn á vettvangi en við leit í bíl hans fannst ennfremur marijúana. Karl á svipuðum aldri var einnig handtekinn í þágu rannsóknarinnar en við leit í bíl hans annars staðar á höfuðborgarsvæðinu fannst lítilræði af kókaíni. Við aðgerðina í Norðlingaholti naut lögreglan aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.