1 Mars 2023 08:43
Kjartan Þorkelsson lögreglustjóri lét af störfum við embættið í gær en hann hefur verið lögreglustjóri frá stofnun embættis Lögreglustjórans á Suðurlandi þann 1. janúar 2015. Farsæll ferill hans í þágu hins opinbera spannar hins vegar mun lengri tíma eða rúm 40 ár, fyrst sem fulltrúi sýslumanns í Rangárvallasýslu 1982, síðan sem sýslumaður í Ólafsfirði, á Blönduósi og í Rangárvallasýslu og nú síðast, eins og áður sagði, lögreglustjóri á Suðurlandi.
Kjartan var kvaddur og honum þakkað heilladrjúgt samstarf af samstarfsfólki sínu í hófi sem haldið var honum til heiðurs á skrifstofu embættisins á Hvolsvelli. Lögreglumenn stóðu heiðursvörð við komu hans til fundar yfirstjórnar og í framhaldi af því vel sótt kaffisamsæti með samstarfsfólki hans.
Við starfi lögreglustjóra á Suðurlandi tekur Grímur Hergeirsson. Hann er okkur vel kunnur, hóf m.a. feril sinn sem lögreglumaður í lögreglu í Árnessýslu fyrir margt löngu og er hann boðinn velkominn til starfa.