26 Nóvember 2024 15:47
Neðangreint súlurit sýnir fjölda frávísunarmála lögreglu á Keflavíkurflugvelli yfir 14 ára tímabil. Flestum er frávísað á innri landamærum á Keflavíkurflugvelli, sameiginlegum landamærum Schengen ríkja hér á landi. Svo hefur verið síðan 2022. Á innri landamærum fer ekki fram persónubundið eftirlit með flugfarþegum. Þar framvísa menn ekki ferðaskilríkjum eða öðrum kennivottorðum. Á ytri landamærum fer fram persónubundið eftirlit með hverjum og einum einstaklingi við för um landamærin þar sem honum ber að gera grein fyrir sér með viðurkenndum persónuskilríkjum. Á mannamáli þýðir það að farþegar til að mynda frá Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada sæta kerfisbundnu landamæraeftirliti á Keflavíkurflugvelli og þurfa að gera grein fyrir sér við landamærahlið áður en þeim er hleypt inn í landið. Þeir eru ríkisborgarar þriðja ríkis, útlendingar sem eru ekki borgarar ríkja sem tilheyra Evrópska efnahagssvæðinu eða falla undir stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu. Þessi ríki tilheyra ekki mengi þeirra ríkja Evrópu sem hafa opinberlega afnumið vegabréfaeftirlit sín á milli. Schengen-samstarfið nær til 29 ríkja. Þau eru EFTA ríkin Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss, og 25 ríki innan Evrópusambandsins. Samstarfið nær ekki til tveggja af aðildarríkjum ESB: Kýpur og Írlands. Vert er að taka fram að þann 31. mars 2024 bættust Búlgaría og Rúmenía í hóp Schengen ríkja. Þátttaka þessara tveggja ríkja í samstarfinu tekur enn sem komið er einungis til loft- og sjólandamæra en ekki til landamæra á landi. Meira en 400 milljónir manna geta ferðast á milli aðildarríkja án þess að fara í gegnum landamæraeftirlit á landamærum ríkjanna. Talið er að nokkrar milljónir manna dvelji ólöglega inn á svæðinu á hverjum tíma.
Schengen-samstarfið felst í grundvallaratriðum í tvennu. Annars vegar afnámi persónubundins eftirlits á innri landamærum Schengen-landanna og hins vegar í mótvægisaðgerðum, sem felast einkum í samvinnu evrópskra lögregluliða, til að tryggja öryggi borgara á Schengen-svæðinu. Með afnámi persónubundins eftirlits á innri landamærum Schengen-ríkjanna er ætlað að greiða fyrir frjálsri för fólks innan Evrópusambandsins, en frjáls för fólks er einn liður í fjórfrelsi innri markaðar Evrópusambandsins sem Ísland gerðist aðili að með EES-samningnum.
Í burðarliðnum er að taka í notkun komu- og brottfarareftirlit (Entry/Exit System (EES)) á ytri landamærum Schengen – ríkjanna. Það verður vonandi fljótlega á næsta ári. Undirbúningur hér á landi hefur gengið ágætlega og nauðsynlegum búnaði hefur verið komið fyrir í komusal á ytri landamærum flugvallarins. Þá hafa landamæraverðir fengið þjálfun í notkun búnaðarins og svo verður áfram fram til þess tíma að kerfið verður tekið í notkun. Kerfið mun án nokkurs vafa styrkja landamæraeftirlit á ytri landamærum Schengen ríkjanna. Sex mánuðum eftir innleiðingu á Entry/Exit System verður tekið í notkun ETIAS ferðaleyfakerfi (European Travel Information and Authorisation System) sem mun enn frekar styrkja löggæslu á ytri landamærum Schengen ríkjanna og þar með á Keflavíkurflugvelli. Kerfi ekki ósvipað ESTA (Electronic System for Travel Authorization) ferðaleyfakerfi Bandaríkjanna. Eins og fyrr er lýst munu þessi nýju kerfi efla allt landamæraeftirlit á ytri landamærum á Keflavíkurflugvelli. Íslensk stjórnvöld eru undirbúin fyrir þessar breytingar.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur lagt ríka áherslu á aukið eftirlit með flugfarþegum sem koma inn á innri landamæri Íslands á Keflavíkurflugvelli. Fyrir inngöngu Íslands í Schengen – samstarfið þurftu flugfarþegar sem hingað komu að gera grein fyrir sér í landamærahliðum flugvallarins með því að sanna á sér deili með því að framvísa viðurkenndum persónuskilríkjum. Vegabréfaskoðun tók þó ekki til ríkisborgara Norðurlandanna. Eftirlit á innri landamærum felst fyrst og fremst í því að greina farþegalista flugvéla auk frumkvæðisvinnu lögreglu og tollgæslu við eftirlit í flugstöðinni.
Frá árinu 2001 hefur íslenskum stjórnvöldum enn ekki tekist að tryggja að öll flugfélög í millilandaflugi skili farþegalistum til íslenskra toll- og löggæsluyfirvalda. Í 51. gr. a tollalaga nr. 88/2005 er skýrt kveðið á um þessa skyldu en þar stendur: „Fyrirtækjum sem annast flutning farþega og vöru til og frá landinu er skylt að afhenda [tollyfirvöldum] upplýsingar um farþega og áhöfn sem nýttar eru við tolleftirlit og til að koma í veg fyrir og rannsaka brot á lögum þessum og öðrum lögum sem lögreglu og öðrum handhöfum lögregluvalds ber að framfylgja. Sama skylda hvílir á stjórnendum, eigendum eða umráðamönnum fara sem ferðast til og frá landinu, þar á meðal [einkaflugfara] 2) og seglskipa.[Tollyfirvöldum], 1) lögreglu og öðrum handhöfum lögregluvalds er heimilt að skiptast á upplýsingum um farþega og áhöfn í þágu eftirlits, greiningarstarfs eða vegna rannsókna á ætluðum brotum gegn ákvæðum laga þessara og ákvæðum annarra laga.
Ráðherra kveður nánar á um umfang upplýsingaskyldunnar, afhendingu á upplýsingum til [tollyfirvalda], þar á meðal um form og tímasetningu, og meðhöndlun á þeim í reglugerð. Þar skal einnig kveðið nánar á um fyrirkomulag upplýsingaskipta milli [tollyfirvalda], ) lögreglu og annarra handhafa lögregluvalds.]“. í reglugerð nr. 1072/2019 um upplýsingagjöf um farþega og áhöfn er farið nánar í afhendingu á þessum upplýsingum. Dómsmálaráðuneytið vinnur nú að lausn málsins sem ætti að klárast á næstu mánuðum, 23 árum eftir að Ísland hóf þátttöku í Schengen – samstarfinu 25. mars árið 2001. Enn skila sér ekki upplýsingar um 7% flugfarþega. Von er á að það breytist fljótlega en lögreglustjóri hefur gagnrýnt harðlega að íslenskri löggjöf hafi ekki verið fylgt um langt árabil hvað þessa upplýsingaskyldu varðar. Það varðar þjóðaröryggi að þessi mál séu í lagi. Það sjá þeir sem hafa skilning og þekkingu á málefnum landamæra.
Frávísunarmál á landamærum á Keflavíkurflugvelli eru 752 það sem af er þessu ári og hafa aldrei verið fleiri. Þá sitja 14 útlendingar í gæsluvarðhaldi vegna innflutnings á fíkniefnum. Þessir einstaklingar koma frá Spáni, Dómeníska lýðveldinu, Nígeríu, Brasilíu, Ítalíu, Moldóvu, Palestínu og Kólumbíu. Hingað koma þeir allir frá öðru Schengen ríki.
Lögreglan á Suðurnesjum horfir til þess að enn verði hægt að efla löggæslu og tollgæslu á Keflavíkurflugvelli. Þörf er á aðstöðu til greiningar á flugfarþegum sem lögregla hefur til skoðunar á landamærum. Sumum verður frávísað frá landinu en öðrum ekki. Um langt árabil hefur lögreglu skort hér aðstöðu. Á stefnuskrá stjórnvalda er að bæta hér úr. Þá er vilji stjórnvalda til þess að taka í notkun andlitsgreiningartækni sem nýtast mun sérstaklega við eftirlit á innri landamærum. Gengið er út frá því að tollgæslan á Keflavíkurflugvelli fái myndgreiningartæki við skoðun flugfarþega sem grunur leikur á að feli fíkniefni innvortis.
Lögreglustjóri væntir þess að ríkisstjórn Íslands styrki og efli landamæraeftirlit hér á landi á komandi kjörtímabili.