11 Febrúar 2013 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktun í húsi í Breiðholti fyrir helgina. Við húsleit á áðurnefndum stað var lagt hald á tæplega 40 kannabisplöntur, en húsráðandi, karl um þrítugt, var handtekinn þegar hann kom akandi á vettvang. Í fórum hans fundust einnig fíkniefni. Í framhaldinu var leitað í öðrum vistarverum sem maðurinn hefur aðgang að annars staðar í hverfinu og þar var lagt hald á rúmlega 100 grömm af kannabisefnum. Þess má geta að maðurinn, sem hefur áður komið við sögu hjá lögreglu og er sviptur ökuleyfi, var tekinn fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna daginn áður en lögreglan fann kannabisplönturnar hjá honum.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.