18 Október 2006 12:00
Lögreglan á Hvolsvelli í samvinnu fíkniefnalögreglumanns við rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi framkvæmdi í dag, miðvikudaginn 18. október, húsleit í íbúðarhúsi í Þykkvabæ þar sem ræktun á kannabisplöntum fór fram í nokkrum mæli.
Lagt var hald á u.þ.b. 50 kannabisplöntur og mun stærsta plantan vera u.þ.b. 110 sm á hæð. Þá var lagt hald á nokkra tugi gramma af niðurskornu mariuana auk áhalda til fíkniefnaneyslunnar. Grunur leikur á að ræktun þessi hafi staðið yfir í nokkuð langan tíma.
Einn karlmaður var handtekinn í tengslum við rannsóknina og hefur hann þegar viðurkennt ræktunina og að vera eigandi kannabisplantnanna og þess efnis sem haldlagt var auk neysluáhalda. Ekki er útilokað að hluta efnisins hafi verið ætlað til sölu auk eigin neyslu. Karlmanninum var sleppt að lokinni yfirheyrslu laust fyrir miðnætti.