25 Mars 2011 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktun í iðnaðarhúsnæði í Kópavogi síðdegis í gær. Við húsleit á áðurnefndum stað fundust 20 kannabisplöntur en ræktunin var vel á veg komin. Á sama stað var einnig lagt hald á tvö skotvopn, þ.e. haglabyssu og riffil. Karl um þrítugt, sem kom á vettvang á meðan leitinni stóð, var handtekinn en í fórum hans fundust um 25 grömm af kókaíni. Í framhaldinu var farið til húsleitar hjá leigutaka húsnæðisins, karls á svipuðum aldri. Í híbýlum hans í Grafarvogi fundust á fjórða tug ambúla af sterum og um 20 kannabisplöntur en kannabisræktunin var haganlega falin í bílskúr við heimili mannsins. Málin teljast upplýst.
Fyrrnefndar aðgerðir eru liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna en sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.