27 Mars 2007 12:00
Karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn á bílastæði í Breiðholti síðdegis í gær. Þar hafði maðurinn brotist inn í bíl en engu náð að stela þegar lögreglumenn komu á vettvang. Í fórum hans fundust samt geislaspilari og geisladiskar sem maðurinn átti erfitt með að gera grein fyrir. Reyndist viðkomandi þá hafa brotist inn í annan bíl þar skammt frá og kom eigandi hans á vettvang. Geislaspilaranum og geisladiskunum var komið aftur í réttar hendur en þjófurinn var færður á lögreglustöð.
Annar pörupiltur, sem hefur áður komið við sögu hjá lögreglu, var yfirheyrður vegna þjófnaðar á eldsneyti frá bensínstöð á höfuðborgarsvæðinu í gær. Sama bensínstöð varð jafnframt fyrir barðinu á öðrum óprúttnum aðila í gær sem tók líka bensín og ók á brott án þess að borga. Sá hinn sami verður yfirheyrður um leið og til hans næst en lögreglan veit deili á honum. Báðir bensínþjófarnir eru 18 ára.