13 Mars 2007 12:00
Tveir karlmenn á þrítugsaldri voru handteknir í Reykjavík í gærkvöld en þeir höfðu stolið peningakassa og tölvubúnaði frá fyrirtæki í austurborginni. Þjófarnir fluttu ránsfenginn á annan stað í borginni og hugðust opna þar peningakassann utandyra. Því fylgdi nokkur hávaði enda beittu mennirnir óspart verkfærum á peningakassann í þeirri von að hann opnaðist. Heiðvirðir borgarar urðu varir við háttalag þjófanna og hringdu strax á lögreglu sem kom fljótt á staðinn og handtók mennina en þeir hafa alloft áður komist í kast við lögin.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vill sérstaklega þakka góð viðbrögð þeirra sómakæru borgara sem veittu upplýsingar og hjálpuðu til við að leysa málið.