5 Nóvember 2010 12:00
Lögreglunni á Suðurnesjum hefur að undanförnu borist nokkur fjöldi tilkynninga um innbrot og tilraunir til innbrots. Innbrotin hafa átt sér stað bæði að nóttu og degi og hafa heimili, bifreiðar og fyrirtæki orðið fyrir barðinu á innbrotsþjófum. Meðal annars var farið inn í ólæstan bíl fyrir utan leikskóla og veski stolið, en ökumaðurinn hafði skroppið inn með barnið sitt í skólann.
Innbrot í heimahús hafa yfirleitt átt sér stað um miðjan dag, þegar fólk er ekki heima. Í flestum tilfellum hafa hálfopnir gluggar verið spenntir upp og þannig farið inn í húsin.
Lögregla vill kom því á framfæri við fólk að gæta að húsum sínum og öðrum eigum og tryggja það að óviðkomandi hafi ekki greiðan aðgang að eigum þess. Mikilvægt er að loka gluggum og læsa tryggilega.
Lögreglan hvetur fólk til að láta vita um grunsamlegar mannaferðir, ekki síst í íbúðahverfum, en upplýsingar frá nágrönnum geta skipt miklu máli. Það sem fólki kann að þykja lítilfjörlegt getur orðið til þess að upplýsa mál. Hér er m.a. átt við lýsingu á mönnum, bifreiðum eða bílnúmerum, en slíkar upplýsingar geta oft komið lögreglu á sporið. Rétt er að geta þess að innbrotsþjófar fylgjast gjarnan með húsum áður en þeir láta til skarar skríða.
Hægt er að koma ábendingum/upplýsingum á framfæri við lögreglu í síma 420-1800 eða netfang lögreglunnar á Suðurnesjum, logreglan@dc.is
Gunnar Ólafur Schram
yfirlögregluþjónn