28 Febrúar 2007 12:00
Þrjú innbrot voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Fartölva var tekin úr húsi í Vogahverfinu, sumardekkjum var stolið úr geymslu í Kópavogi og skjávarpi hvarf úr einum af grunnskólum borgarinnar.
Tveir þjófar voru gripnir í matvöruverslunum, annar í Hafnarfirði en hinn í Reykjavík. Veski var stolið frá gesti í líkamsræktarstöð í borginni og á öðrum stað var iPod-spilari tekinn ófrjálsri hendi í íþróttamiðstöð. Iðnaðarmenn í Breiðholti söknuðu verkfæra en þau hurfu á meðan mennirnir fengu sér kaffisopa. Í vesturbæ Reykjavíkur hrifsaði piltur um tvítugt fartölvu úr fórum sautján ára stúlku. Þá stálu tveir piltar söfunarbauki frá bensínstöð en í honum voru peningar sem áttu að renna til styrktar bágstöddum börnum. Góðar líkur eru á því að síðasttöldu þjófarnir náist mjög fljótlega.