30 September 2010 12:00
Allnokkur innbrot voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Fartölvu og myndavél var stolið úr húsi í Kópavogi, símar og skartgripir hurfu úr kjallaraíbúð í Laugardal og þá var áfengi tekið af veitingastað í miðborginni. Brotist var inn í fimm bíla í umdæminu og úr þeim m.a. stolið GPS-tæki, radarvara og leðurtösku, sem innihélt skilríki, greiðslukort og seðlaveski. Sem fyrr ítrekar lögreglan að verðmæti séu ekki skilin eftir í bílum. Sé það óumflýjanlegt er mikilvægt að slíkir hlutir séu ekki í augsýn.
Fáein hnuplmál komu sömuleiðis á borð lögreglu og þá var tveimur reiðhjólum stolið í borginni, öðru í vesturbænum en hinu í Breiðholti.